Tuesday, December 4, 2007

Alpha Dog (2006)



Jæja! Ég var rétt í þessu að horfa á kvikmyndina Alpha Dog frá árinu 2006. Myndin er leikstýrð af engum öðrum en Nick Cassavetes(?), en fékk þó líklega meiri athygli fyrir að vera frumraun Justin Timberlakes á hvíta tjaldinu auk þess sem Bruce Willis kom við sögu. Myndin gerist í eiturlyfjaheimi hvíts lágstéttarpakks á þrítugsaldrinum og fjallar um deilur milli eiturlyfjasala að nafni Johny Truelove og Jake félaga hans sem skuldar honum pening. Johny og félagar hans eru á rúntinum dag einn þegar þeir koma skyndilega auga á hann Zack sem er litli bróðir Jake. Þeir bregða á það ráð að ræna Zack og nota hann sem tryggingu fyrir skuld Jake´s. Þeir koma vel fram við Zack og hann nýtur þess að hanga með þeim félögum. Fljótlega átta þeir sig þó á alvarleika málsins þar sem lífstíðardómur getur hlotist fyrir slíkt mannrán. Ætla ekki að fara nánar út í þá sálma en myndin er byggð á sannsögulegum atburðum svo glöggir ættu að geta áttað sig á framgangi mála. Annars er myndin nokkuð eðlileg í sniðum eins og flestar Hollywood myndir. Fáein atriði voru þó kannski pínu "original" eins og þegar nýtt vitni að atburðinum kom til sögunnar, þá kom lítill texti til hliðar þar sem mátti sjá númer hvað vitnið var en í heildina voru þau 38 á þeim þremur dögum sem þetta allt saman stóð yfir. Síðan mátti sjá bregða fyrir pínu "mocumentary" áhrifum þegar viðtöl voru sýnd, í byrjun myndarinnar og í lokin, við ýmsa sem tengdust atburðinum á einn eða annan hátt, en það voru s.s. viðtöl við leikarana en ekki hinar raunverulegu persónur. Ég hafði bara nokkuð gaman af myndinni og þótti mér hún bæði skemmtileg og spennandi en ekki of átakanleg þrátt fyrir að fjalla um slíkan harmleik. Í heildina séð er þetta fín sunnudagsmynd sem enginn ætti að láta framhjá sér fara á góðum sunnudegi.

1 comment:

Siggi Palli said...

Nick Cassavetes er (held ég örugglega) sonur John Cassavetes sem var frábær leikari og stórgóður leikstjóri. John lék meðal annars eiginmanninn í Rosemary's Baby og gerði það frábærlega (djöfulli hataði ég persónu hans í þeirri mynd, þvílík naðra!). John lék annars aðallega í myndum til þess að fjármagna leikstjórnarverkefnin sín sem hann gerði fyrir eigin pening með nokkuð föstum hópi leikara (sem allir voru vinir hans). Nick virðist ekki vera neinn föðurbetrungur (segi ég þó ég hafi raunar ekki séð þessa mynd).