Wednesday, November 21, 2007

Some Like It Hot (1959)

Some Like It Hot er kvikmynd í leikstjórn Billy Wilders frá árinu 1959. Við horfðum á þessa mynd í kvikmyndagerð í síðustu viku, hugmyndin var sú að horfa á eina létta eftir allar þær þungu sem á undan voru. Merkur maður sagði eitt sinn ''það þýðir ekki alltaf að fá sér steik, maður verður líka stundum að fá sér pulsu'' en það er önnur saga.


Myndin segir frá tveimur hljóðfæraleikurum, þeim Jerry og Joe (leiknir af Jack Lemon og Tony Curtis) sem fyrir einskærri óheppni verða vitni að blóðbaði þegar ein mafíuklíka þurrkar aðra út. Þeir komast undan en eru með djöfulinn á hælum sér og bregða því á það örþrifaráð að flýja borgina með því að klæða sig upp sem konur og ganga í kvennahljómsveit. Þar kynnast þeir fjölda föngulegra kvenna en ein ber af. Sú heitir Sugar Kane Kowalczyk og er leikin af engri annarri en Marilyn Monroe. Þeir verða báðir yfir sig hrifnir af Sugar en Jerry er sá sem hreppir hnossið þar sem hann verður sér úti um fín herramannsföt og læst vera auðkýfingur og eigandi Shell samsteypunnar. Joe greyið sem er enn í sínu kvengervi, situr uppi með gamlan auðkýfing sem er yfir sig ástfanginn af honum og lætur hann vart í friði.


Myndin er ágætlega gerð og leikararnir standa sig með prýði en samt þótti mér hún ekki nægilega fyndin. Myndin gat þó verið skemmtileg á köflum og fær að sjálfsögðu prik fyrir að vera forveri fjölda frægra grínmynda. Einnig hafði ég gaman af því sem Siggi sagði okkur með kossasenurnar, þ.e. að á þessum tíma máttu kossar í kvikmyndum ekki standa lengur yfir en í fáeinar sekúndur. Þetta fannst mér þó vera vel leyst og hafði ég nokkuð gaman að senunni þegar það var skipt á milli kossaflens þeirra Jerry´s og Sugar annarsvegar og dansatriði Joe´s og gamla auðkýfingsins hinsvegar. Ég á ekki von á því að horfa á þessa ágætu mynd aftur en þó mæli ég ekki gegn því að fólk sjái hana enda mjög fræg og líka bara gaman að sjá hina gullfallegu Marilyn Monroe leika. Jæja hef þetta ekki lengra, bless í bili!

No comments: