Saturday, December 8, 2007

Das Leben der Anderen (2006)


Mynd sem á sér stað í Berlín á níunda áratugi síðustu aldar þegar múrinn stóð enn. Georg Dreyman er rithöfundur sem á í ástríku sambandi við Christu-Mariu Sieland og eru þau mjög hamingjusöm saman. Málið er samt ekki alveg svo einfalt því hinn gerspillti Bruno Hempf menntamálaráðherra Þýskalands er líka hrifinn af Christu. Af ást og afbrýðisemi lætur hann koma fyrir hlerunarbúnaði í íbúð þeirra Georgs og Christu þar sem fylgst er með þeim dag og nótt. Gerd Wiesler er sá sem er látinn fylgjast með þeim hvað mest og er hann eins og vélmenni við störf sín. Mennska hlið hans nær þó fljótt tökum og hann sekkur inn í líf þeirra eins og dáleiddur. Hann heyrir ýmislegt nefnt á heimili þeirra sem auðveldlega væri hægt að nota gegn þeim en þess í stað breytir hann skýrslum sínum þeim til góðs. Hvernig hann breytist svona skyndilega er sýnt ágætlega þegar undirmaður hans á að skipta um vaktir við hann, í fyrstu skammar hann manninn fyrir að mæta fimm mínútum of seint en seinna þegar hann er orðinn heltekinn af lífi þeirra á hann erfitt með að leyfa manninum að taka við af sér. Mér fannst umgjörð myndarinnar minna soldið á þýska spennuþætti, tökurnar og allt það en hún sýnir einnig vel hvernig ástandið var á þessum tíma. Líklega besta þýska mynd sem ég hef séð, fannst hún a.m.k. betri en Der Untergang og maður hreinlega límist við skjáinn. Kannski soldið þunglyndisleg á köflum eins og flestar þýskar myndir en mjög vel gerð og spennandi.

No comments: