Thursday, December 6, 2007

Jólamyndir Guðmundar!

Ég vaknaði um hádegið í dag og leit út um gluggann. Mér til mikillar gleði sá ég að það snjóaði og allur garðurinn og trén úti voru þakin hvítum snjó. Í tilefni þess að jólin eru að koma datt mér í hug að skrifa litla jólafærslu þar sem ég mun telja upp nokkrar myndir sem ég tel tilvalið að horfa á til að komast í jólaskap.

1. Home Alone 2 (1992), þessa mynd horfði ég á á hverjum jólum þegar ég var yngri og er óhætt að segja að hún hafi skilið mikið eftir sig og í raun og veru mótað þann mann sem ég er í dag. Fyrri myndin er líka mjög góð og tilvalin til þess að horfa á í jólafríinu en númer 2 er samt betri enda er hann núna týndur í New York. Barnastjarnan Macaulay Culkin er frábær í hlutverki sínu sem Kevin(KEVIN!) og líka gaman að bófunum tveimur þeim Joe Pesci og þarna hinum(Daniel Stern). Góð mynd sem lætur manni líða vel.
2. Edward Scissorhands (1990), önnur mynd í anda jólanna sem minnir mann á barnæsku sína. Myndin er í rauninni ekki svo ólík Home Alone myndunum en hún inniheldur góðan húmor, fallega tónlist og endar fallega. Johnny Depp leikur mann sem lenti í smá slysi í æsku þegar hann var að föndra með þeim afleiðingum sem allir þekkja. Tim Burton leikstýrir myndinni en flestar hans myndir eru í einhverjum svona jólastíl. Allavega þá er þetta ein af þessum myndum sem skilur mann eftir með kökkinn í hálsinum.
3. LOTR (trilógían), Það þarf nú ekki að kynna Lord of the Rings fyrir neinum en þær eru meðal þeirra mynda sem eru til þess gerðar að horfa á yfir jólatímann. Já fátt annað um þessar myndir að segja, það hafa allir séð þær.
4. A Christmas Carol (1999), þessa mynd sá ég einhverntímann í sjónvarpinu og í minningunni var hún alveg frábær. Flestir þekkja þessa sögu og þetta er líklega ekki eina útgáfan sem hefur verið gerð en ég hreifst mjög af henni og hafði gaman af Patrick Stewart í hlutverki sínu sem Mr. Ebenezer Scrooge. Myndin var gerð fyrir sjónvarp sem er líklega ástæða þess að hún sé ekki þekktari, en þetta er mynd sem ég væri alveg til í að sjá aftur.

Læt þennan stutta lista duga í bili en ef þið lumið á einhverjum góðum jólamyndum þá megiði endilega commenta og deila þeim með mér og þeim fjölmörgu sem heimsækja síðuna mína dag hvern.

No comments: