Saturday, December 8, 2007

A Clockwork Orange (1971)

Reikna með því að flestir sem lesa bloggið mitt hafi séð þessa mynd Kubricks þannig að ég tala kannski frekar um það sem mér þótti athyglisvert við myndina heldur en að rekja upp allan söguþráðinn. Myndin er mjög listræn og flott, en til að mynda finnst mér flott hvað er mikið af skemmtilegum persónum í myndinni sem eru samt svo óraunverulegar, t.d. konan með typpastyttuna, fangelsisvörðurinn, kallinn í hjólastólnum og að sjálfsögðu Alex de Large. Það er eins og leikararnir séu að leika í einhverjum öðrum stíl sem hentar myndinni samt frábærlega. Myndin einblínir þó nánast eingöngu á Alex de Large og flest sýnt frá hans sjónarhorni. Mikið af flottum senum í myndinni eins og þegar hann fer með tvær stelpur heim og þau stunda kynlíf í dágóða stund en það er allt sýnt hratt, fannst líka mjög flott þegar hann hittir tvo fyrrum félaga sína sem berja hann til óbóta og það heyrist svona doing hljóð í hvert sinn sem þeir berja hann með kylfunum sínum. Sem önnur dæmi get ég nefnt þegar hann er búinn að fara í "aðgerðina" og laus úr fangelsinu og kallinn í hjólastólnum lætur læsa hann inni í herbergi og neyðir hann til þess að hlusta á níundu sinfoníu Beethovens og svo lokasenan þegar hann er orðinn "læknaður" en mér fannst gaman að sjá geðsjúklinginn Alex de Large í sínu gamla formi, brosandi eftir pínu slæman kafla hjá honum.

Smá pæling varðandi Stanley Kubrick, en ég sá myndina The Killing frá árinu 1956 fyrir nokkrum árum síðan og fannst hún nokkuð góð og væri alveg til í að sjá hana aftur svo ég vildi bara athuga hvort það væri áhugi fyrir því að horfa á hana eftir jól (hvað segir þú Siggi?), bara svona hugmynd. Annars væri ég líka til í að sjá Lolitu, hef séð stærstan hluta hennar en ekki endirinn, en hún er samt frekar löng held ég.

Das Leben der Anderen (2006)


Mynd sem á sér stað í Berlín á níunda áratugi síðustu aldar þegar múrinn stóð enn. Georg Dreyman er rithöfundur sem á í ástríku sambandi við Christu-Mariu Sieland og eru þau mjög hamingjusöm saman. Málið er samt ekki alveg svo einfalt því hinn gerspillti Bruno Hempf menntamálaráðherra Þýskalands er líka hrifinn af Christu. Af ást og afbrýðisemi lætur hann koma fyrir hlerunarbúnaði í íbúð þeirra Georgs og Christu þar sem fylgst er með þeim dag og nótt. Gerd Wiesler er sá sem er látinn fylgjast með þeim hvað mest og er hann eins og vélmenni við störf sín. Mennska hlið hans nær þó fljótt tökum og hann sekkur inn í líf þeirra eins og dáleiddur. Hann heyrir ýmislegt nefnt á heimili þeirra sem auðveldlega væri hægt að nota gegn þeim en þess í stað breytir hann skýrslum sínum þeim til góðs. Hvernig hann breytist svona skyndilega er sýnt ágætlega þegar undirmaður hans á að skipta um vaktir við hann, í fyrstu skammar hann manninn fyrir að mæta fimm mínútum of seint en seinna þegar hann er orðinn heltekinn af lífi þeirra á hann erfitt með að leyfa manninum að taka við af sér. Mér fannst umgjörð myndarinnar minna soldið á þýska spennuþætti, tökurnar og allt það en hún sýnir einnig vel hvernig ástandið var á þessum tíma. Líklega besta þýska mynd sem ég hef séð, fannst hún a.m.k. betri en Der Untergang og maður hreinlega límist við skjáinn. Kannski soldið þunglyndisleg á köflum eins og flestar þýskar myndir en mjög vel gerð og spennandi.

Thursday, December 6, 2007

Jólamyndir Guðmundar!

Ég vaknaði um hádegið í dag og leit út um gluggann. Mér til mikillar gleði sá ég að það snjóaði og allur garðurinn og trén úti voru þakin hvítum snjó. Í tilefni þess að jólin eru að koma datt mér í hug að skrifa litla jólafærslu þar sem ég mun telja upp nokkrar myndir sem ég tel tilvalið að horfa á til að komast í jólaskap.

1. Home Alone 2 (1992), þessa mynd horfði ég á á hverjum jólum þegar ég var yngri og er óhætt að segja að hún hafi skilið mikið eftir sig og í raun og veru mótað þann mann sem ég er í dag. Fyrri myndin er líka mjög góð og tilvalin til þess að horfa á í jólafríinu en númer 2 er samt betri enda er hann núna týndur í New York. Barnastjarnan Macaulay Culkin er frábær í hlutverki sínu sem Kevin(KEVIN!) og líka gaman að bófunum tveimur þeim Joe Pesci og þarna hinum(Daniel Stern). Góð mynd sem lætur manni líða vel.
2. Edward Scissorhands (1990), önnur mynd í anda jólanna sem minnir mann á barnæsku sína. Myndin er í rauninni ekki svo ólík Home Alone myndunum en hún inniheldur góðan húmor, fallega tónlist og endar fallega. Johnny Depp leikur mann sem lenti í smá slysi í æsku þegar hann var að föndra með þeim afleiðingum sem allir þekkja. Tim Burton leikstýrir myndinni en flestar hans myndir eru í einhverjum svona jólastíl. Allavega þá er þetta ein af þessum myndum sem skilur mann eftir með kökkinn í hálsinum.
3. LOTR (trilógían), Það þarf nú ekki að kynna Lord of the Rings fyrir neinum en þær eru meðal þeirra mynda sem eru til þess gerðar að horfa á yfir jólatímann. Já fátt annað um þessar myndir að segja, það hafa allir séð þær.
4. A Christmas Carol (1999), þessa mynd sá ég einhverntímann í sjónvarpinu og í minningunni var hún alveg frábær. Flestir þekkja þessa sögu og þetta er líklega ekki eina útgáfan sem hefur verið gerð en ég hreifst mjög af henni og hafði gaman af Patrick Stewart í hlutverki sínu sem Mr. Ebenezer Scrooge. Myndin var gerð fyrir sjónvarp sem er líklega ástæða þess að hún sé ekki þekktari, en þetta er mynd sem ég væri alveg til í að sjá aftur.

Læt þennan stutta lista duga í bili en ef þið lumið á einhverjum góðum jólamyndum þá megiði endilega commenta og deila þeim með mér og þeim fjölmörgu sem heimsækja síðuna mína dag hvern.

Wednesday, December 5, 2007

Kaldaljós (2004)

Sá Kaldaljós nýlega og þótti mér hún athyglisverð á margan hátt. Myndin er leikstýrð af Hilmari Oddsyni og með aðalhlutverk fer Ingvar E. Sigurðsson. Myndin fjallar um Grím, mann í kringum fertugt sem er teiknari og stundar nám við Listaháskólann. Myndin flakkar á milli nútímans og þess tíma þegar hann var krakki og bjó í litu sjávarþorpi úti á landi. Grímur hefur mikla skyggnigáfu og sér oft slæma atburði fyrir. Hann verður fyrir því "óhappi" að barna listakennarann sinn en telur sig ekki vera tilbúinn til að axla slíka ábyrgð, það virðist eins og fortíðin sé eitthvað að angra hann. Samband þeirra slitnar að sjálfsögðu og hann fer á sínar æskuslóðir, líklega til að finna sig. Mér þótti sviðsmyndin mjög flott, umhverfið og allt það þegar hann var ungur, og tíminn var mjög raunverulegur. Leikararnir stóðu sig nokkuð vel en Áslákur sonur Ingvars lék Grím á yngri árum, enda þeir feðgar nauðalíkir. Það var ein sena sem ég tók sérstaklega eftir en það var þegar Helga Braga( já hún lék s.s. líka í myndinni) kvað Ingvari að módelið þeirra, ung kona sem þau höfðu verið að teikna í Listaháskólanum, hefði framið sjálfsmorð. Þegar hún sagði þetta þá var Ingvari mjög brugðið og það var notuð svona taka þar sem zoomið er á Ingvari og myndavélin færð nær en á sama tíma er zoomið dregið til baka, veit ekki alveg hvað þetta er kallað. Fannst þetta mjög töff í Raging Bull þegar Jake LaMotta er allur blóðugur og bólginn í framan upp við reipin og segir Sugar Ray að koma í sig ("come on Ray" endurtekur hann í sífellu) en Sugar Ray horfir á Jake eins og hann trúi ekki hversu geðveikur maðurinn sé en lyftir að lokum upp hnefanum og þá kemur einmitt þessi umrædda taka rétt áður en hann lumbrar á honum. Þetta er þekkt úr mörgum myndum og heppnast misvel, mér þótti þetta ekki nógu áhrifaríkt í Kaldaljósi, heldur þótti mér þetta frekar eins og einhverskonar tilraunastarfsemi. Einnig fór það pínu í taugarnar á mér hvað myndin endaði skyndilega og finnst mér eins og hún skilji minna eftir sig af þeim sökum. Hef tekið eftir þessu í mörgum íslenskum myndum, get nefnt Astrópíu og Nóa albínóa sem dæmi, en mér finnst oft eins og leikstjórarnir eigi í erfiðleikum með að ljúka myndunum almennilega og getur það komið soldið niður á þeim. Sá líka Kalda slóð fyrir stuttu og var ég mjög ánægður með hvað hún endaði almennilega án þess að skilja eftir neina lausa hnúta. Kaldaljós er reyndar soldið listrænni og dýpri þannig að það getur verið erfiðara að enda þannig myndir en samt er ég orðinn soldið þreyttur á að flestar íslenskar kvikmyndir endi eins og um einhverja reddingu sé að ræða. Nokkuð fín og vel gerð mynd annars.

Tuesday, December 4, 2007

Alpha Dog (2006)



Jæja! Ég var rétt í þessu að horfa á kvikmyndina Alpha Dog frá árinu 2006. Myndin er leikstýrð af engum öðrum en Nick Cassavetes(?), en fékk þó líklega meiri athygli fyrir að vera frumraun Justin Timberlakes á hvíta tjaldinu auk þess sem Bruce Willis kom við sögu. Myndin gerist í eiturlyfjaheimi hvíts lágstéttarpakks á þrítugsaldrinum og fjallar um deilur milli eiturlyfjasala að nafni Johny Truelove og Jake félaga hans sem skuldar honum pening. Johny og félagar hans eru á rúntinum dag einn þegar þeir koma skyndilega auga á hann Zack sem er litli bróðir Jake. Þeir bregða á það ráð að ræna Zack og nota hann sem tryggingu fyrir skuld Jake´s. Þeir koma vel fram við Zack og hann nýtur þess að hanga með þeim félögum. Fljótlega átta þeir sig þó á alvarleika málsins þar sem lífstíðardómur getur hlotist fyrir slíkt mannrán. Ætla ekki að fara nánar út í þá sálma en myndin er byggð á sannsögulegum atburðum svo glöggir ættu að geta áttað sig á framgangi mála. Annars er myndin nokkuð eðlileg í sniðum eins og flestar Hollywood myndir. Fáein atriði voru þó kannski pínu "original" eins og þegar nýtt vitni að atburðinum kom til sögunnar, þá kom lítill texti til hliðar þar sem mátti sjá númer hvað vitnið var en í heildina voru þau 38 á þeim þremur dögum sem þetta allt saman stóð yfir. Síðan mátti sjá bregða fyrir pínu "mocumentary" áhrifum þegar viðtöl voru sýnd, í byrjun myndarinnar og í lokin, við ýmsa sem tengdust atburðinum á einn eða annan hátt, en það voru s.s. viðtöl við leikarana en ekki hinar raunverulegu persónur. Ég hafði bara nokkuð gaman af myndinni og þótti mér hún bæði skemmtileg og spennandi en ekki of átakanleg þrátt fyrir að fjalla um slíkan harmleik. Í heildina séð er þetta fín sunnudagsmynd sem enginn ætti að láta framhjá sér fara á góðum sunnudegi.