Wednesday, November 21, 2007

Some Like It Hot (1959)

Some Like It Hot er kvikmynd í leikstjórn Billy Wilders frá árinu 1959. Við horfðum á þessa mynd í kvikmyndagerð í síðustu viku, hugmyndin var sú að horfa á eina létta eftir allar þær þungu sem á undan voru. Merkur maður sagði eitt sinn ''það þýðir ekki alltaf að fá sér steik, maður verður líka stundum að fá sér pulsu'' en það er önnur saga.


Myndin segir frá tveimur hljóðfæraleikurum, þeim Jerry og Joe (leiknir af Jack Lemon og Tony Curtis) sem fyrir einskærri óheppni verða vitni að blóðbaði þegar ein mafíuklíka þurrkar aðra út. Þeir komast undan en eru með djöfulinn á hælum sér og bregða því á það örþrifaráð að flýja borgina með því að klæða sig upp sem konur og ganga í kvennahljómsveit. Þar kynnast þeir fjölda föngulegra kvenna en ein ber af. Sú heitir Sugar Kane Kowalczyk og er leikin af engri annarri en Marilyn Monroe. Þeir verða báðir yfir sig hrifnir af Sugar en Jerry er sá sem hreppir hnossið þar sem hann verður sér úti um fín herramannsföt og læst vera auðkýfingur og eigandi Shell samsteypunnar. Joe greyið sem er enn í sínu kvengervi, situr uppi með gamlan auðkýfing sem er yfir sig ástfanginn af honum og lætur hann vart í friði.


Myndin er ágætlega gerð og leikararnir standa sig með prýði en samt þótti mér hún ekki nægilega fyndin. Myndin gat þó verið skemmtileg á köflum og fær að sjálfsögðu prik fyrir að vera forveri fjölda frægra grínmynda. Einnig hafði ég gaman af því sem Siggi sagði okkur með kossasenurnar, þ.e. að á þessum tíma máttu kossar í kvikmyndum ekki standa lengur yfir en í fáeinar sekúndur. Þetta fannst mér þó vera vel leyst og hafði ég nokkuð gaman að senunni þegar það var skipt á milli kossaflens þeirra Jerry´s og Sugar annarsvegar og dansatriði Joe´s og gamla auðkýfingsins hinsvegar. Ég á ekki von á því að horfa á þessa ágætu mynd aftur en þó mæli ég ekki gegn því að fólk sjái hana enda mjög fræg og líka bara gaman að sjá hina gullfallegu Marilyn Monroe leika. Jæja hef þetta ekki lengra, bless í bili!

Wednesday, November 14, 2007

Crimes and Misdemeanors (1989)


Crimes and Misdemeanors er kvikmynd Woody Allens frá árinu 1989. Ég horfði á þessa mynd um daginn og verð að segja að mér þótti hún bara nokkuð góð, eins og flestar myndir þessa merka leikstjóra. Þó að þessi mynd sé ágætlega gerð þá er ástæðan fyrir vinsældum Woody Allen mynda líklega frekar vegna góðra handrita og svarts húmors heldur en einhverra meistaratakta í kvikmyndagerð. Myndin er dálítið frumleg að því leiti að hún segir í raun tvær sjálfstæðar sögur sem víxlast á. Kvikmyndagerðarmaðurinn Cliff Stern og augnlæknirinn Judah Rosenthal eru aðalpersónur í sitthvorri sögunni. Cliff sem leikinn er af Woody Allen lifir frekar óspennandi lífi, konan hans er hætt að sofa hjá honum og ferill hans í kvikmyndabransanum er í stöðnun. Bróðir konu hans (sem leikinn er af Alan Alda) ákveður að gefa honum tækifæri á að gera kvikmynd um sig sem hann tekur þrátt fyrir að honum sé frekar illa við það. Myndin er frekar óspennandi í gerð og ekki hjálpar hatrið sem hann ber í garð mannsins. Ég hafði nokkuð gaman af senunum þar sem Woody var að taka upp viðtal við Alan Alda þar sem hann var að útskýra hvað húmor væri og kom þá sterklega í ljós hversu glataður hann var(had to be there). Cliff kallinn vill þó klára verkið svo hann geti gert heimildamynd um einhvern gamlan gyðing sem hann hefur svona ákaflega gaman að. Mia Farrow leikur einnig í myndinni og verður Woody ástfanginn af henni. Í hinni sögunni er Judah Rosenthal, sem leikinn er af Martin Landau, vel stæður augnlæknir sem á góða konu og ástríka fjölskyldu. Eina vandamálið er viðhaldið hans sem hann kynntist fyrir nokkrum árum. Sú er orðin ástfangin af honum Judah okkar og vill að hann yfirgefi konuna sína fyrir sig. Hann elskar konuna sína og er orðinn dálítið áhyggjufullur að kellingin kjafti frá öllu saman. Síðan á sér stað röð atburða sem ég ætla ekki að fara nánar út í. Mæli allavega með þessari mynd, hafði sjálfur mjög gaman að henni. Woody parturinn er líklega skemmtilegri og gamansamari, parturinn með augnlækninum er spennuþrungnari og dramatískari. Síðan hittast þeir að sjálfsögðu í lok myndarinnar í veislu einni og eiga þar stutt spjall yfir drykk.