Wednesday, December 5, 2007

Kaldaljós (2004)

Sá Kaldaljós nýlega og þótti mér hún athyglisverð á margan hátt. Myndin er leikstýrð af Hilmari Oddsyni og með aðalhlutverk fer Ingvar E. Sigurðsson. Myndin fjallar um Grím, mann í kringum fertugt sem er teiknari og stundar nám við Listaháskólann. Myndin flakkar á milli nútímans og þess tíma þegar hann var krakki og bjó í litu sjávarþorpi úti á landi. Grímur hefur mikla skyggnigáfu og sér oft slæma atburði fyrir. Hann verður fyrir því "óhappi" að barna listakennarann sinn en telur sig ekki vera tilbúinn til að axla slíka ábyrgð, það virðist eins og fortíðin sé eitthvað að angra hann. Samband þeirra slitnar að sjálfsögðu og hann fer á sínar æskuslóðir, líklega til að finna sig. Mér þótti sviðsmyndin mjög flott, umhverfið og allt það þegar hann var ungur, og tíminn var mjög raunverulegur. Leikararnir stóðu sig nokkuð vel en Áslákur sonur Ingvars lék Grím á yngri árum, enda þeir feðgar nauðalíkir. Það var ein sena sem ég tók sérstaklega eftir en það var þegar Helga Braga( já hún lék s.s. líka í myndinni) kvað Ingvari að módelið þeirra, ung kona sem þau höfðu verið að teikna í Listaháskólanum, hefði framið sjálfsmorð. Þegar hún sagði þetta þá var Ingvari mjög brugðið og það var notuð svona taka þar sem zoomið er á Ingvari og myndavélin færð nær en á sama tíma er zoomið dregið til baka, veit ekki alveg hvað þetta er kallað. Fannst þetta mjög töff í Raging Bull þegar Jake LaMotta er allur blóðugur og bólginn í framan upp við reipin og segir Sugar Ray að koma í sig ("come on Ray" endurtekur hann í sífellu) en Sugar Ray horfir á Jake eins og hann trúi ekki hversu geðveikur maðurinn sé en lyftir að lokum upp hnefanum og þá kemur einmitt þessi umrædda taka rétt áður en hann lumbrar á honum. Þetta er þekkt úr mörgum myndum og heppnast misvel, mér þótti þetta ekki nógu áhrifaríkt í Kaldaljósi, heldur þótti mér þetta frekar eins og einhverskonar tilraunastarfsemi. Einnig fór það pínu í taugarnar á mér hvað myndin endaði skyndilega og finnst mér eins og hún skilji minna eftir sig af þeim sökum. Hef tekið eftir þessu í mörgum íslenskum myndum, get nefnt Astrópíu og Nóa albínóa sem dæmi, en mér finnst oft eins og leikstjórarnir eigi í erfiðleikum með að ljúka myndunum almennilega og getur það komið soldið niður á þeim. Sá líka Kalda slóð fyrir stuttu og var ég mjög ánægður með hvað hún endaði almennilega án þess að skilja eftir neina lausa hnúta. Kaldaljós er reyndar soldið listrænni og dýpri þannig að það getur verið erfiðara að enda þannig myndir en samt er ég orðinn soldið þreyttur á að flestar íslenskar kvikmyndir endi eins og um einhverja reddingu sé að ræða. Nokkuð fín og vel gerð mynd annars.

No comments: