Wild at Heart er mynd David Lynch frá 1990. Söguþráður og gangur myndarinnar er nokkuð einfaldur þrátt fyrir að þetta sé "David Lynch"-mynd en þó er aldrei langt í sýruna. Ég sá Wild at Heart enn eina ferðina um daginn en ég hef séð hana nokkrum sinnum áður þó að það séu nokkur ár síðan ég sá hana síðast. Myndin er listræn, samt nokkuð létt, og í hæfilegri lengd og því hefur hún alltaf verið í nokkru uppáhaldi hjá mér og þegar ég sá hana aftur um daginn þá fannst mér hún enn mjög góð en samt var eitthvað sem fór pínu í taugarnar á mér. Kannski er það vegna þess að ég hef séð hana svona oft áður eða þá það hvað mér finnst leiðinlegt þegar góðir leikstjórar eru svo fullir sjálfstrausts að þeir halda að þeir geti leyft sér hvað sem er. Þetta sést t.d. glögglega með Tarantino en hverju sem hann kemur nálægt er ávallt hrósað í hástert, samt fellur allt sem hann gerir í dag algjörlega í skuggann á Pulp Fiction. Það er mikið af góðum leikurum í myndinni og ber þar helst að nefna Nicholas Cage, Lauru Dern og mömmu hennar Diane Ladd (en þær leika einmitt mæðgur í myndinni), Willem Dafoe og Isabella Rossellini. Nicholas Cage og Diane Ladd standa sig best, Willem Dafoe er mjög óhugnalegur í sínu hlutverki og Laura Dern er svo sem allt í lagi þó hún sé frekar óþolandi að eðlisfari. Ein sena sem mér fannst nokkuð áhugaverð er þegar Nicholas Cage og Laura Dern eru að keyra um nóttina í niðamyrkri og Cage er með einhverjar svaka játningar um að hann hafi vitað hvað kom fyrir föður hennar og hið fallega lag Wicked Game er spilað undir. Mér fannst þetta mjög flottur partur en þá var stemmingin svona nokkuð róleg og jafnvel dramatísk en síðan er skyndilega klippt á eitthvað atriði með Diane Ladd sem er í allt öðrum dúr og lagið hættir en síðan eftir einhvern tíma þá er aftur klippt á Cage og Dern í bílnum og sama stemmingin heldur áfram og samtalið þeirra og lagið heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist, fannst þetta allavega nokkuð óvenjulegt þó þetta heppnist frekar vel. Annars hvet ég bara alla þá sem eru eftir að sjá myndina til að kíkja á hana, hún er kannski ekki helsta meistaraverk David Lynch en hún er þónokkuð skemmtileg á að horfa og ekki jafn þung og flestar aðrar myndir hans. Bless í bili!
Wednesday, January 9, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
5 stig.
Post a Comment