Wednesday, February 6, 2008

Funny Games (1997)


Þessi mynd frá árinu 1997 er leikstýrð af Michael Haneke en ég þekki ekki aðrar myndir hans. Myndin var sýnd á mánudegi eftir skóla, ég komst ekki svo ég horfði á myndina heima en maður heyrði að menn voru ekkert of sáttir við myndina og voru að tala um að hún væri of langdregin og fleira. Þessu er ég alls ekki sammála heldur fannst mér myndin athyglisverð og nokkuð góð, ekki frábær en góð. Ætli menn hafi ekki tekið eftir því að það var engin bíómyndatónlist í myndinni(held ég alveg örugglega) og hef ég tekið eftir því að það fer soldið minna fyrir bíómyndatónlist í þýskum myndum heldur en t.d. bandarískum og er það þá oftast klassísk tónlist sem er spiluð. Þetta fannst mér alls ekkert verra heldur gerði þetta jafnvel stemminguna raunverulegri. Mér fannst samt pínu asnalegt að aðal vondi gæjinn var alltaf að tala við áhorfendurna. Annað hvort átti þetta að vera eitthvað frumlegt, en þetta hefur oft verið gert áður eins og t.d. í Waynes World að ég held, eða þá fannst handritshöfundinum þetta svo mikil vitleysa að hann hefur bara viljað blanda einhverju asnalegu djóki inn í þetta. En þetta er nefnilega engin vitleysa, það er fullt af svona geðveikum unglingum í Austurríki og Þýskalandi sem hlusta á þungarokk og skjóta niður skólann sinn eða eitthvað álíka heimskulegt. Hefði verið betri ef þessu hefði verið sleppt en endirinn var líka mjög kúl þegar hann biður um lánuð egg.

Oldboy (2003)

Japönsk spennumynd frá 2003 í leikstjórn Chan-wook Park. Myndin snýst um hefnd og segir sögu manns að nafni Dae-su Oh sem var rænt mjög skyndilega og færður í fangaklefa, með sjónvarpi, lítilli baðaðstöðu og rúmi. Hann hefur enga hugmynd um hvers vegna hann var tekinn til fanga, hver var að verki eða hve lengi hann þarf að dvelja í þessu litla herbergi. Eftir 15 löng ár er honum loks sleppt, hann veit ekki hvers vegna mennirnir sem standa á bak við þetta sleppa honum nú eftir allan þennan tíma, en hann veit þó eitt. Hann ætlar að ná fram hefndum.

Frábær mynd í alla staði, lík Fight Club að mörgu leiti en samt mjög frumleg og plottið er náttúrulega snilld. Það er í rauninni bara allt við þessa mynd geðveikt, flott bardagaatriði eins og t.d. þegar hann lemur þarna svona þúsund gæja í klessu en þar er takan alveg einstök. Reyndar kannski spurning afhverju hann reyndi ekki að hafa upp á dóttur sinni þegar honum var sleppt lausum en það er samt bara aukaatriði. Gaman að horfa á þessa og Hold up down og fá þar með smá tilfinningu fyrir japanskri kvikmyndagerð og þó mér hafi ekki þótt Hold up down neitt sérstök þá var Oldboy frábær í alla staði og líklega besta "erlenda mynd" sem ég hef séð. Væri alveg til í að sjá fleiri myndir eftir þennan leikstjóra.

Hold up down (2005)


Ég sá þessa athyglisverðu mynd um daginn og ég verð bara að segja að mér fannst hún ekki nógu góð. Ég reyndar horfði ekki á hana við bestu skilyrði en vegna tölvunnar sem ég horfði á hana í þá var hún hikstandi allan tímann sem var mjög truflandi. Auk þess var ég frekar þreyttur þegar ég byrjaði að horfa á hana svo ég hætti í miðri mynd og kláraði hana seinna. Myndin hefði kannski verið eitthvað betri hefði ég horft á hana í góðum gæðum, eldhress og í góðum félagsskap. En samt er myndin bara svona japönsk sýra, ýmislegt fyndið en manni líður líka hálf undarlega af því að horfa á svona mynd. Jesús dýrkarinn þarna var nokkuð fyndinn og ég hafði líka nokkuð gaman af bardagasenunni í lokin á hótelinu þar sem sýran náði hámarki. Eflaust fín mynd fyrir þá sem fíla svona japanska steypu. Já, hef ekkert mikið um þessa mynd að segja. Bless í bili!

Monday, January 28, 2008

Brúðguminn (2008)




Ég, Aron, Hjálmar og Vésteinn kíktum á Brúðgumann í síðustu viku. Aroni og Vésteini var held ég frekar misboðið og fundust myndin léleg. Hjálmar var ekki alveg á sama máli en honum fannst hún bara vera ágæt miðað við íslenska mynd. Ég er sammála Hjálmari að því leyti að mér fannst myndin fín í samanburði við aðrar íslenskar myndir, hún var vel gerð, vel leikin og þannig séð ekkert yfir mörgu að kvarta en mér fannst hún samt ekkert sérstaklega skemmtileg. Mér fannst hún t.d. betur gerð og betur leikin heldur en Veðramót og málfarið var ekki jafn þvingað eða svona "textalegt" eins og þar(eins og er oft í íslenskum bíómyndum) en samt fannst mér Veðramót vera áhugaverðari. Síðan finnst mér þessi íslenski húmor í bíómyndum orðinn soldið þreyttur, þar sem íslenskur maður í lopapeysu sem er lélegur í ensku er kjánalegur í kringum útlendinga. Þessi mynd ætti samt líklega alveg skilið Eddu þar sem það er mikið lagt í hana og eina sem ég get kvartað yfir er að hún var ekkert sérstaklega skemmtileg, tengdapabbi brúðgumans var nú samt alveg skemmtilegur og nokkuð fyndinn á köflum. Jæja, gott í bili!

e.s. Ein pæling varðandi atriðið þar sem Hilmir Snær er enn kvæntur fyrrverandi konu sinni og hún og presturinn koma að honum og verðandi konu hans út í móa. En mér fannst frekar kjánalegt að þegar þau sjá hann þá grípur hann um typpið á sér eins og bananinn í Svala auglýsingunni. Hann myndi ekkert bregaðst svona við, það er ekkert eins og konan hans hafi ekki séð typpið á honum áður og afhverju ætti honum ekki að vera sama þó að prestinn sæi hann. Kannski enginn að spá í þessu en mér fannst þetta samt sem áður vera ónákvæmni.

Wednesday, January 9, 2008

Wild at Heart (1990)


Wild at Heart er mynd David Lynch frá 1990. Söguþráður og gangur myndarinnar er nokkuð einfaldur þrátt fyrir að þetta sé "David Lynch"-mynd en þó er aldrei langt í sýruna. Ég sá Wild at Heart enn eina ferðina um daginn en ég hef séð hana nokkrum sinnum áður þó að það séu nokkur ár síðan ég sá hana síðast. Myndin er listræn, samt nokkuð létt, og í hæfilegri lengd og því hefur hún alltaf verið í nokkru uppáhaldi hjá mér og þegar ég sá hana aftur um daginn þá fannst mér hún enn mjög góð en samt var eitthvað sem fór pínu í taugarnar á mér. Kannski er það vegna þess að ég hef séð hana svona oft áður eða þá það hvað mér finnst leiðinlegt þegar góðir leikstjórar eru svo fullir sjálfstrausts að þeir halda að þeir geti leyft sér hvað sem er. Þetta sést t.d. glögglega með Tarantino en hverju sem hann kemur nálægt er ávallt hrósað í hástert, samt fellur allt sem hann gerir í dag algjörlega í skuggann á Pulp Fiction. Það er mikið af góðum leikurum í myndinni og ber þar helst að nefna Nicholas Cage, Lauru Dern og mömmu hennar Diane Ladd (en þær leika einmitt mæðgur í myndinni), Willem Dafoe og Isabella Rossellini. Nicholas Cage og Diane Ladd standa sig best, Willem Dafoe er mjög óhugnalegur í sínu hlutverki og Laura Dern er svo sem allt í lagi þó hún sé frekar óþolandi að eðlisfari. Ein sena sem mér fannst nokkuð áhugaverð er þegar Nicholas Cage og Laura Dern eru að keyra um nóttina í niðamyrkri og Cage er með einhverjar svaka játningar um að hann hafi vitað hvað kom fyrir föður hennar og hið fallega lag Wicked Game er spilað undir. Mér fannst þetta mjög flottur partur en þá var stemmingin svona nokkuð róleg og jafnvel dramatísk en síðan er skyndilega klippt á eitthvað atriði með Diane Ladd sem er í allt öðrum dúr og lagið hættir en síðan eftir einhvern tíma þá er aftur klippt á Cage og Dern í bílnum og sama stemmingin heldur áfram og samtalið þeirra og lagið heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist, fannst þetta allavega nokkuð óvenjulegt þó þetta heppnist frekar vel. Annars hvet ég bara alla þá sem eru eftir að sjá myndina til að kíkja á hana, hún er kannski ekki helsta meistaraverk David Lynch en hún er þónokkuð skemmtileg á að horfa og ekki jafn þung og flestar aðrar myndir hans. Bless í bili!

Monday, January 7, 2008

Beowulf (2007)



Ég og Aron skelltum okkur á Beowulf eða Bjólfskviðu í jólafríinu og held ég alveg örugglega að ég tali fyrir hönd okkar beggja þegar ég segi að myndin var stórfengleg. Fyrir var ég ekkert sérstaklega spenntur þar sem hvorki söguþráðurinn né annað er varðaði myndina heillaði mig mikið auk þess sem maður vissi ekki við hverju mátti búast af þessari þrívíddar tækni. Þvert á móti væntingum mínum þá sat ég dolfallinn í sætinu mínu í rökkruðum kvikmyndasalnum að muncha nachos og sötra svellkalda kók. Fyrst þurftu augun reyndar aðeins að venjast þrívíddartækninni og gleraugunum en það stóð ekki lengi og fyrr en varði var maður allur á iði í sætinu að kippast við af innlifun. -Já innlifun! En það er eitt það frábærasta við þessa mynd eða þessa tækni hvað maður lifir sig inn í myndina. Einnig var ég ánægður með að þeir voru ekkert að ofgera 3-D..inu þó að það hafi komið atriði í myndinni sem fóru í taugarnar á manni. En mér fannst ein sena soldið asnaleg, þegar einhver maður kom ríðandi á hesti í áttina að Beowulf og otaði spjóti að honum og spjótið kemur svona risastórt fram í áhorfendaskarann, minnir að það hafi komið svipað atriði með eitthvað sverð. Þegar ég sá Beowulf var mér hugsað til tölvugerðu myndarinnar Final Fantasy sem ég sá fyrir einhverjum árum síðan. Final Fantasy átti að vera nokkuð byltingarkennd á sínum tíma enda öll tölvugerð en ef ég ber þessar tvær myndir saman þá er Beowulf líklega raunverulegri...auk þess sem hún er í þrívídd!!(makes you think). Annars á þessi mynd bara lof skilið þar sem hún er frábærlega gerð og er fátt sem klikkar. Ég vona líka að þessi tækni verði þróuð áfram á næstu árum því að það væri hægt að gera svo magnaðar myndir á þennan hátt. Beowulf er drasl ein og sér en það er 3-D..ið sem gerir hana að einhverju aðeins meira. Hvernig væru t.d. myndir á borð við Matrix eða LOTR í 3-D?!

Saturday, December 8, 2007

A Clockwork Orange (1971)

Reikna með því að flestir sem lesa bloggið mitt hafi séð þessa mynd Kubricks þannig að ég tala kannski frekar um það sem mér þótti athyglisvert við myndina heldur en að rekja upp allan söguþráðinn. Myndin er mjög listræn og flott, en til að mynda finnst mér flott hvað er mikið af skemmtilegum persónum í myndinni sem eru samt svo óraunverulegar, t.d. konan með typpastyttuna, fangelsisvörðurinn, kallinn í hjólastólnum og að sjálfsögðu Alex de Large. Það er eins og leikararnir séu að leika í einhverjum öðrum stíl sem hentar myndinni samt frábærlega. Myndin einblínir þó nánast eingöngu á Alex de Large og flest sýnt frá hans sjónarhorni. Mikið af flottum senum í myndinni eins og þegar hann fer með tvær stelpur heim og þau stunda kynlíf í dágóða stund en það er allt sýnt hratt, fannst líka mjög flott þegar hann hittir tvo fyrrum félaga sína sem berja hann til óbóta og það heyrist svona doing hljóð í hvert sinn sem þeir berja hann með kylfunum sínum. Sem önnur dæmi get ég nefnt þegar hann er búinn að fara í "aðgerðina" og laus úr fangelsinu og kallinn í hjólastólnum lætur læsa hann inni í herbergi og neyðir hann til þess að hlusta á níundu sinfoníu Beethovens og svo lokasenan þegar hann er orðinn "læknaður" en mér fannst gaman að sjá geðsjúklinginn Alex de Large í sínu gamla formi, brosandi eftir pínu slæman kafla hjá honum.

Smá pæling varðandi Stanley Kubrick, en ég sá myndina The Killing frá árinu 1956 fyrir nokkrum árum síðan og fannst hún nokkuð góð og væri alveg til í að sjá hana aftur svo ég vildi bara athuga hvort það væri áhugi fyrir því að horfa á hana eftir jól (hvað segir þú Siggi?), bara svona hugmynd. Annars væri ég líka til í að sjá Lolitu, hef séð stærstan hluta hennar en ekki endirinn, en hún er samt frekar löng held ég.