Tuesday, October 23, 2007

Rosemary´s Baby (1968)

Rosemary´s Baby er kvikmynd Roman Polanskys frá árinu 1968. Myndin fjallar um ung hjón Guy og Rosemary Woodhouse sem flytja í nýja íbúð á Manhattan. Blokkin sem þau flytja í á sér þó slæma sögu og mörg undarleg dauðsföll hafa átt sér stað í henni. Skömmu eftir flutninginn í nýju íbúðina kynnast þau vinalegu eldra pari sem vill allt fyrir þau gera. Guy kann fljótlega mjög vel við þau en Rosemary finnst konan vera soldið uppáþrengjandi. Rosemary verður svo ólétt í kjölfar martraðar þar sem henni finnst sér vera nauðgað af einhverri óhemju. Þegar það er orðið opinbert að hún sé ólétt þá byrja hjónin að vera óvenju afskiptasöm og vilja hjálpa Rosemary, meðal annars með því að láta hana í hendur nýs læknis. Þetta finnst Rosemary óþægilegt og fer að óttast um öryggi barns síns en Guy virðist vera himinlifandi með hjálpina sem gömlu hjónin veita.

Það flottasta við myndina er líklega drungalega stemmingin sem Polansky tekst að skapa án þess að neitt hræðilegt sé sýnt í raun og veru og eykst hún þegar líður á myndina. Þessari stemmingu nær hann líklega með því að nota þrönga linsu(veit það þó ekki fyrir víst) auk þess sem tónlistin sem notuð er heppnast fullkomlega. Lýsingin hentar líka vel fyrir drungalegt andrúmslofið. Leikararnir standa sig flestir vel og þá sérstaklega Mia Farrow sem sýnir stórleik sem Rosemary. Myndin er frábær í alla staði og tvímælalaust meðal þeirra betri sem ég hef séð, þó mæli ég ekki með myndinni fyrir viðkvæmar sálir þar sem þetta er ein af þessum mannskemmandi myndum. Til gamans má geta að húsið sem myndin var tekin upp í er það sama og John Lennon var síðar drepinn fyrir framan.

Ég horfði á myndina nú um daginn í annað skipti á DVD disk sem ég keypti nýlega. Fyrra skiptið var þegar ég leigði myndina á VHS fyrir nokkrum árum og var eitt sem fór í taugarnar á mér við síðara áhorfið*SPOILER*. Þannig er mál með vexti að þegar ég horfði á myndina í annað skipti var ég alltaf að bíða eftir atriði í lok myndarinnar þar sem barn djöfulsins var sýnt. Það atriði var mér minnisstætt frá fyrra áhorfi mínu því mér fannst þetta frekar flott atriði jafnvel þó svo að það hafi verið notað frekar lélegt gervi. En loks þegar kemur að þessu blessaða atriði á DVD disknum þá er búið að klippa það út, líklega þar sem það var of gervilegt. Kannski bara smekksatriði en mig langaði allavega að sjá barn djöfulsins aftur (hefði líklega bara átt að gera þetta betur upprunalega).

Þangað til næst!

No comments: